Þríþraut er íþrótt sem varð til í Frakklandi um 1920 og var kölluð á frönsku „Les Trois sports“ eða „Íþróttirnar þrjár.“ Það er ansi lýsandi nafn á greininni því þríþraut byggist á því að í einni lotu er synt, svo hjólað og endað á hlaupi ákveðna vegalengd. Í þá daga var synt yfir sundið Marne, svo tóku við 12 kílómetra vegalengd á hjóli og endað á 3 kílómetra hlaupi.

Uppúr 1970 fer hópur reiðhjólamanna, hlaupara og sundmanna í Kaliforníu að æfa saman af og til. Með tímanum þróuðust æfingarnar í óformlega keppni og þann 25. september árið 1974 var fyrsta formlega keppnin í þríþraut haldin í San Diego í Bandaríkjunum. Vinsældir íþróttarinnar síðan þá hafa aukist mjög. Í þessari fyrstu keppni voru þáttakendur 46 talsins og syntu þeir 450 metra, hjóluðu 8 kílómetra og hlupu 9,5 kílómetra.

Í daga starfa þrjár nefndir hvers hlutverk er að gefa út og samræma opinberar reglur fyrir greinina, þar sem hver nefnd sér um að löggilda og samþykkja mismunandi tegundir keppna.

USA Triathlon (USAT) eða Bandaríska þríþrautarsambandið heldur meðal annars utan um bandarískar keppnir í þríþraut, tvíþraut, sundmaraþoni og vetrarþríþraut. Sambandið sér um yfir 2000 keppnir á ári. Þegar sambandið var stofnað árið 1982 voru meðlimir um 1500 en síðan eru skráðir meðlimir orðnir 100.000.

Alþjóðlega þríþrautarsambandið var stofnað árið 1989 í Avignon, Frakklandi. Aðalástæðan fyrir stofnun sambandsins var að fá þríþraut viðurkennda sem keppnisgrein á Ólympíuleikunum. Það hafðist og keppt var í þríþraut í fyrsta sinn á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000. Sambandið sér einnig um að löggilda útsláttarkeppnir fyrir heimsmeistaramót í þríþraut, sem haldið er árlega.

Alþjóðlega þríþrautarfélagið var stofnað árið 1990 og sér um allt sem viðkemur útsláttarkeppnunum fyrir Járnkarlinn sem haldnar eru um allan heim og enda síðan með aðalkeppninni á Havaí, sem haldinn er ár hvert, sem nokkurs konar heimsmeistarakeppni í þríþraut. Járnkarlskeppnin er ekki viðurkennd af alþjóðalega þríþrautarsambandinu, en er engu að síður afar vinsæl um heim allan.