Þjálfun fyrir þríþraut

Til að undirbúa keppni í þríþraut er fjölbreytt þjálfun nauðsynleg og þarf ekki endilega að snúast um að hlaupa, synda eða hjóla. Göngur og fjallgöngur eru einnig góð þjálfun fyrir næstu keppnir. Og þá skiptir litlu máli hver staðsetningin er á landinu, allstaðar er hægt að finna sér góða staði til að æfa á.

Á Egilsstöðum og nágrenni eru að finna fjölmargar göngu-, fjallgöngu-, og hlaupaleiðir auk þess sem hægt er að taka þátt í skipulögðum gönguferðum. Ferðafélag Íslands, sem er til húsa að Tjarnarási 8 á Egilsstöðum býður til dæmis upp á skipulagðar gönguferðir allt árið um kring hvern einasta sunnudag. Ef ekkert annað er auglýst er brottför frá skrifstofu ferðafélagsins að Tjarnarási, alla sunnudaga kl. 10:00.

Frá 1. október til 30. apríl á hverju ári er ekki farið eftir fyrirfram skipulagðri dagskrá, heldur fer gönguleiðin eftir fjölda þátttakenda, hvernig veður dagurinn býður upp á og ríkjandi vindátt. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega, bara mæta á svæðið með 500 krónur í þátttökugjald og vera klæddur eftir veðri. Gott er að hafa með sér auka aur til að geta lagt í púkk fyrir bensíni ef það á við.

Fyrir þá sem eru að byrja æfingar og vilja ekki skella sér beint í djúpu laugina gætu gönguhópar sem þessir einmitt verið rétti staðurinn til að byrja. Það er nefnilega ómetanlegt að stunda æfingar í félagsskap með öðrum, en vera ekki alltaf að kúldrast einn í sínum eigin heimi. Í sæmilega óskipulögðum gönguhópum sem þessum er líka gott að hitta annað fólk, sem er í svipuðum hugleiðingum varðandi æfingar, eða einfaldlega nýtur þess að vera úti við í góðra vina hópi. Það er líka ágætt að setja á sig smá pressu til að rífa sig upp á sunnudagsmorgni og drífa sig út, sérstaklega þegar veðrið er ekkert upp á sitt besta þann daginn.

Sunnudagsgöngur Ferðafélags Íslands eru að sjálfsögðu ekki aðeins haldnar á Egilsstöðum, heldur vítt og breitt um landið.