Hér er yfirlit yfir almennar reglur sem allir keppendur í þríþraut verða að fylgja. Þetta eru reglur sem á að fylgja í öllum þremur þáttum þríþrautarinnar. Verði keppandi uppvís um brot á þessum reglum þarf sá hinn sami að takast á við afleiðingar sem því fylgja.

Keppendur þurfa að fara eftir ákveðnum reglum þegar keppt er í þríþraut. Þeir þurfa að sýna fram á íþróttamannslega hegðun og fara eftir settum keppnisreglum, sýna starfsfólki og öðrum keppendum kurteisi og virðingu. Ef keppendur brjóta reglur skulu þeir fara til yfirdómara eða keppnisstjóra og tilkynna brot sitt. Kjósi keppandi að hætta í keppni skal hann tilkynna það um leið til keppnisstjóra. Keppendur þurfa að kynna sér keppnisbraut fyrir keppni og ekki má víkja af braut nema fara aftur inn á sama stað. Brot sem tengjast slíku varða tímavíti eða brottvísun úr keppni ef brot skyldi vera svo alvarlegt.

Keppendur þurfa að keppa í búnaði sem er löglegur. Það er keppandinn sjálfur sem ber ábyrgð á að búnaðurinn uppfylli öryggiskröfur móthaldara. Búnaður þarf að fara í skoðum a.m.k. 30 mínútum fyrir keppni, ef keppandinn hefur ekki sýnt dómara búnað sinn fyrir þann tíma er litið á það sem svo að hann sé hættur í keppni.

Óheimilt er að hindra, trufla eða tefja aðra keppendur. Einnig er óheimilt að þiggja aðstoð frá öðrum keppendum, hinsvegar er leyfilegt að þiggja aðstoð frá starfsmönnum keppninnar, sérstaklega þegar kemur að varadekki, búnaði, mat eða drykk.

Óheimilt er að afklæðast úr keppnistopp eða bol á meðan keppni er í gangi.

Keppnisnúmer keppanda skal alltaf vera áberandi, sérstaklega við ræsingu, endamark, á brautinni og á skiptisvæðum.

Óheimilt er að nota farsíma, glerflöskur/glerílát, heyrnartól, tónlistartæki eða tónlistarbúnað sem yfirdómari telur hættulegan. Slíkur búnaður getur stofnað öryggi annarra keppenda í hættu.

Óheimilt er að nota allan þann búnað sem yfirstjóri/keppnisstjóri telur að stofni öðrum keppendum í hættu eða veita viðkomandi forskot á aðra.