Þríþraut er kapphlaup þar sem keppt er í sundi, hlaupi og hjóli. Þar er keppt um hver er fljótastur að klára alla hluta þrautarinnar og er meðtalinn sá tími sem það tekur fyrir keppendur að skipta úr einni íþrótt í aðra.

Járnmaðurinn (e. ironman) er ein þeirra keppna þar sem keppt er í þríþrautinni, en í henni er keppt úti um allan heim og oft á ári. Keppnin er ein sú frægasta og virtasta sinnar tegundar og margir sem hafa það að markmiði að keppa í þessari þríþraut. Í þrautinni er keppt í 3,86 km sundi, hjólað í 180.25 km og hlaupið í 42.40 km. Í flestum tilvikum þarf þríþrautinni að vera lokið á innan við 16 – 17 tímum. Af þessu má sjá að keppnin er einungis fyrir þá allra hörðustu og duglegustu.

Járnmaðurinn stendur fyrir alls kyns þríþrautum á hverju ári en hins vegar er aðeins ein Heimsmeistarakeppni í þríþraut á vegum Járnmannsins. Hún er árlega og er ávallt haldin á Hawaii í Bandaríkjunum. Næst verður keppnin haldin þann 13. október næstkomandi en keppnin hefur verið haldin árlega síðan 1978. Í fyrra vann Patrick Lange, frá Þýskalandi, keppnina í karlaflokki þegar hann kláraði hana á 8 klukkustundum, 1 mínútu og 40 sekúndum og sló þar með heimsmet. Í sömu keppni í kvennaflokki vann Daniela Lyf, frá Sviss. Daniela hafði sett heimsmet í kvennaflokki árið 2016 þegar hún kom í mark eftir 8 klst, 46 mínútur og 46 sekúndur. Hennar met stendur enn.

Um það bil 50.000 manns taka þátt árlega og klára heilan járnmann (e. full ironman) en það eru um það bil 25 keppnir árlega. Það hefur því þvílíkt bæst í hóp járnmanna en árið 1978, í fyrstu járnmannskeppninni sem var heimsmeistarakeppnin og haldin í Hawaii, tóku aðeins 15 manns þátt. Vinsældir keppninnar hafa því mikið aukist á seinustu 40 árum.

Á síðu ironman.com er að finna alls kyns upplýsingar um skráningu og æfingar í aðdraganda keppninnar.