Fréttir úr heimi þríþrautanna

Á sumrinu sem leið var hægt að finna sér ýmis konar íþróttir og íþróttaviðburði til að fylgjast með í sjónvarpinu. Það horfði t.d. meirihluti íslensku þjóðarinnar á íslenska karlalandsliðið keppa í fótbolta á HM í Rússlandi. En það var hægt að horfa á ýmislegt fleira. Íslenskar sjónvarpsstöðvar buðu til að mynda upp á það að áhugamenn um þríþrautir gætu fylgst með þríþrautarkeppnum úti í heimi í beinni útsendingu. Hlýtur mörgum að finnast það mikið fagnaðarefni.

Rúv var núna í ágúst síðastliðnum með beinar útsendingar frá Meistaramóti Evrópu en þar var meðal annars keppt í þríþraut. Sýnt var frá liðakeppnum í þríþraut, þríþraut karla og þríþraut kvenna. En þar keppti Íslendingurinn og þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir. Guðlaug var númer 20 í mark af þeim 45 sem tóku þátt. Hún lauk keppninni á tveimur klukkustundum, fimm mínútum og nítján sekúndum. Fyrst í mark var hin svissneska Nicola Spirig en hún kom í mark eftir eina klukkustund, 59 mínútur og 13 sekúndur. Guðlaug var því ekki nema um það bil 6 mínútum á eftir fyrsta keppanda.

Guðlaug Edda byrjaði íþróttaferil sinn sem sundkona en hún æfði sund í átta ár og vann þar til margra verðlauna. Í dag býr Guðlaug í Odense í Danmörku þar sem hún æfir með norrænu afreksþríþrautarfólki í Tri Team SDU. Guðlaug vann þar að auki gullverðlaun í tvíþraut (sund og hlaup) á heimsmeistaramóti í þríþraut núna í sumar. Rúv greindi frá því í sumar að Guðlaug stefndi á að keppa á næstu Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020.

Meistaramót Evrópu (EM) var haldið í stórborgunum Berlín og Glasgow núna í ár og var það í fyrsta sinn sem þetta mót hefur verið haldið. Keppt var í hinum ýmsu íþróttagreinum til dæmis frjálsum íþróttum, sundi, fimleikum, þríþraut og fleira. Fjölmargir Íslendingar kepptu á mótinu en Guðlaug Edda var þó eini Íslendingurinn sem keppti fyrir Íslands hönd í þríþraut.