Þríþraut er tiltölulega ný íþróttagrein sem samanstendur hins vegar af þremur aldagömlum íþróttagreinum: sundi, hjólreiðum og hlaupi. Þríþraut er frábær íþróttagrein sem gefur öllum þeim sem hafa líkamlega getu, tækifæri til að þjálfa sig upp og taka þátt. Þríþraut er íþróttagreinin sem hentar bæði konum og körlum á öllum aldri.

Rekja má þríþraut allt til ársins 1920 og er hugmyndin því nánast 100 ára gömul. Fyrsta nútímalega þríþrautarmótið var hins vegar ekki haldið fyrr en 25. september 1974 og var það haldið í San Diego í Kaliforníu fylki í Bandaríkjunum. Fyrsta heimsmeistaramótið var svo haldið 6. ágúst 1989. Á heimsmeistaramótinu varð til ákveðinn alþjóðlegur staðall fyrir vegalengdir sem er í dag viðmiðið Ólympíuleikanna í þríþraut en þríþraut varð að ólympíugrein árið 2000.

Járnmaðurinn (en. Ironman) er sennilega þekktasta þríþrauta mótaröðin. Járnmaðurinn heldur yfir 260 mót í 44 löndum. Vegalengdirnar í Járnmanninum er töluvert lengri en vegalengdir Ólympíuleikanna. Heill Járnmaður er 3,8 kílómetrar sund, 180 kílómetrar á hjóli og 42,195 kílómetra hlaup. Einnig er hægt að keppa í hálfum Járnmanni sem kallast einnig Járnmaður 70,3 og eru vegalengdirnar þá helmingi styttri.

Þríþrautasamband Íslands er sú stofnun sem heldur utan um keppnir, úrslit og þátttakendur fyrir Íslands hönd í þríþraut. Þríþrautin er hins vegar mjög ný og stutt komin á Íslandi enn sem komið er. Allar líkur eru þó á því að breyting verði á því í nánustu framtíð.

Það skemmtilega við þríþraut er að, þó svo að allir komist ekki á Ólympíuleikana, geta allir æft sig og tekið þátt í minni mótum sér til ánægju og hvatningar til heilbrigðs lífsstíls .

Þríþraut er hvetjandi fyrirkomulag fyrir þá sem vilja ná líkamlegum árangri.